Fékk símtal frá Guardiola

Pep Guardiola vonast til þess að styrkja hópinn hjá sér …
Pep Guardiola vonast til þess að styrkja hópinn hjá sér í sumar. AFP

Ismael Bennacer, miðjumaður ítalska knattspyrnufélagsins AC Milan, er eftirsóttur af Englandsmeisturum Manchester City en það er ítalski miðillinn Calciomercato sem greinir frá þessu. Bennacer, sem er 22 ára gamall, er frá Alsír en hann gekk til liðs við AC Milan fyrir þetta tímabil frá A-deildarliði Empoli.

AC Milan borgaði 16 milljónir evra fyrir leikmanninn sem hefur skrifaði undir fimm ára samning í Mílanó. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann byrjað 18 leiki í ítölsku A-deildinni á tímabilinu. Calciomercato segir að Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, hafi persónulega hringt í leikmanninn og rætt við hann um enska félagið. 

Það gæti hins vegar reynst þrautinni þyngri að fá Bennacer til Englands en AC Milan er sagt vilja fá í kringum 50 milljónir evra fyrir leikmanninn. Leikmaðurinn er með fjögurra ára samning og Milan er því í ansi þægilegri stöðu en leikmaðurinn er metinn á 18 milljónir evra í dag og er City ekki tilbúið að borga meira en 25 milljónir evra fyrir leikmanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert