Framherjinn klár í slaginn

Marcus Rashford er klár í slaginn en hann hefur verið …
Marcus Rashford er klár í slaginn en hann hefur verið að glíma við bakmeiðsli síðan í janúar. AFP

Marcus Rashford, framherji enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er heill heilsu og hefur jafnað sig af bakmeiðslum sem hafa verið að hrjá hann síðan í janúar en það er Mirror sem greinir frá þessu. Í fyrstu var talið að hann myndi missa af restinni af tímabilinu en þar sem hlé var gert á ensku úrvalsdeildinni vegna kórónuveirufaraldursins er ljóst að hann mun spila lokaleiki tímabilsins.

United heimsækir Tottenham í fyrsta leik sínum eftir hlé, og reiknar enskir fjölmiðlar með því að Rashford verði í byrjunarliðinu gegn sínum fyrrverandi knattspyrnustjóra José Mourinho. Rashford er 22 ára gamall en hann hefur spilað mjög vel fyrir United á leiktíðinni og skorað 14 mörk í 22 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Alls eru níu umferðir eftir af tímabilinu á Englandi eða 92 leikir. Manchester United er sem stendur í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 45 stig, þremur stigum frá Meistaradeildarsæti. Chelsea er í fjórða sæti deildarinnar með 48 stig og Leicester er í öðru sætinu með 53 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert