Ekki í fyrsta sinn sem leikið er á tómum Villa Park

Engir áhorfendur verða á Villa Park á morgun.
Engir áhorfendur verða á Villa Park á morgun. AFP

Aston Villa tekur á móti Sheffield United á morgun í fyrsta leiknum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir að keppni fer af stað á ný eftir kórónuveirufaraldurinn.

Liðin leika fyrir luktum dyrum á Villa Park, heimavelli Aston Villa, klukkan 17 að íslenskum tíma og slást um gríðarlega dýrmæt stig. Bæði lið komu upp úr B-deildinni fyrir ári síðan en Villa er í harðri fallbaráttu á meðan Sheffield United hefur komið geysilega á óvart og er í baráttu um Evrópusæti.

Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem leikið er án áhorfenda á Villa Park. Áður gerðist það fyrir 38 árum þegar Aston Villa tók á móti Besiktas haustið 1982 í 1. umferð í Evrópukeppni meistaraliða.

Aston Villa varð Evrópumeistari vorið 1982 með því að sigra Bayern München 1:0 í úrslitaleik en vegna óláta stuðningsmanna liðsins á leik gegn Anderlecht í þeirri keppni var Villa refsað með því að þurfa að leika fyrsta heimaleikinn í keppninni 1982-83 án áhorfenda, gegn Besiktas frá Tyrklandi.

Á tómum Villa Park í september 1982, þar sem aðeins voru um 70 blaðamenn, 15 starfsmenn og nokkrir lögregluþjónar, komust Evrópumeistararnir í 3:0 á fyrsta hálftímanum með mörkum frá Peter Withe, Tony Morley og Dennis Mortimer. Leikurinn endaði 3:1 og Villa kláraði dæmið með markalausu jafntefli frammi fyrir 45 þúsund áhorfendum í Istanbúl.

Þá má geta þess að Valur mætti Aston Villa á Villa Park ári áður, í 1. umferð sömu keppni 1981-82. Enska liðið vann þann leik 5:0 og hafði áður sigrað 2:0 á Laugardalsvellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert