Hver ætlar að borga bónusinn?

Oliver Norwood ræddi málin við Michael Oliver í gær.
Oliver Norwood ræddi málin við Michael Oliver í gær. AFP

Oliver Norwood, leikmaður Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, var afar ósáttur eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í gær. Norwood tók aukaspyrnu frá vinstri á 42. mínútu sem markvörður Aston Villa, Örjan Nyland, handsamaði en það fór ekki betur en svo að hann datt með boltann inn í markið.

Marklínutæknin brást hins vegar illilega og vegna þessa fékk Michael Oliver, dómari leiksins, ekki neina ábendingu um að mark hefði verið skorað. Forráðamenn Hawk-Eye, þeirra sem standa að marklínutækninni sem notuð er á Englandi, voru fljótir að stíga fram eftir leik gærdagsins og biðjast afsökunar á þeim mistökum sem gerð voru.

„Það er í raun ótrúlegt að það sé hægt að gera svona mistök miðað við alla þá tækni sem stuðst er við í fótboltanum í dag,“ sagði Norwood í samtali við Sky Sports. „Það er búið að eyða þvílíkum peningum í að gera þetta á sem fullkomnasta hátt og svo sjá þeir ekki einföld atriði eins og þetta sem er gjörsamlega óskiljanlegt.

Hver ætlar að borga bónusinn okkar ef við missum af Evrópusæti út af þessu atviki? Ég ræddi við dómarann eftir leik og hann var hálf orðlaus. Þetta var alls ekki honum að kenna og það er enginn að kenna honum um mistökin. Hann reiknar auðvitað bara með því að tæknin virki en það hlýtur bara einhver að hafa séð þetta, til dæmis í VAR-herberginu,“ bætti Norwood við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert