Hæstánægður með að komast í undanúrslit

Ole Gunnar Solskjær fylgist með leiknum í gær.
Ole Gunnar Solskjær fylgist með leiknum í gær. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var að vonum kátur eftir að liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar í fótbolta með 2:1-sigri á Norwich á útivelli í framlengdum leik í gær. 

„Svona er bikarinn, þetta var ekki besti leikurinn en við héldum boltanum ágætlega. Við náðum hins vegar ekki að skapa mörg færi, en ég er hæstánægður með að vera kominn í undanúrslit og það var gott fyrir Maguire að ná að skora,“ sagði Solskjær, en Harry Maguire skoraði sigurmarkið á 118. mínútu.  

„Ég notaði marga leikmenn sem spiluðu ekki síðasta leik og það var gott fyrir þá að fá 90 eða 120 mínútur, það gerir þeim gott. Ég hef mikla trú á að sömu leikmenn geti spilað á móti Brighton í næstu viku,“ sagði Norðmaðurinn, en Odion Ighalo skoraði fyrra mark liðsins. 

„Það er gott að geta gert breytingar. Martial kom inn á og spilaði virkilega vel og Ighalo er góður kostur sem skorar mörk,“ sagði sá norski. 

mbl.is