Frestað eða fært vegna fjölgunar smita í borginni

Jamie Vardy og félagar í Leicester standa vel að vígi …
Jamie Vardy og félagar í Leicester standa vel að vígi í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu. AFP

Nokkrar líkur eru á að fresta þurfi viðureign Leicester og Crystal Palace sem fram á að fara í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn kemur, eða þá að færa leikinn yfir á hlutlausan völl.

Kórónuveirufaraldurinn hefur magnast á ný í borginni Leicester og þar hafa greinst mörg smit síðustu sólarhringa. Fyrir vikið hafa reglur um samkomubann verið hertar á ný og verða í gildi næstu tvær vikurnar.

Leikvangur Leicester, King Power Stadium, er í miðri borginni og Richard Masters, framkvæmdastjóri úrvalsdeildarinnar, hefur tjáð breska þinginu að áætlanir séu um að flytja leikinn á hlutlausan völl eða  fresta honum ef nauðsyn krefur. 

Deildin er með nokkra hlutlausa velli til taks ef til þess kemur að ekki verði hægt að spila á heimavelli einhvers liðsins í úrvalsdeildinni.

mbl.is