Langþráð mark Gylfa - stórsigrar Arsenal og Newcastle

Gylfi Þór Sigurðsson skorar annað mark Everton í leiknum í …
Gylfi Þór Sigurðsson skorar annað mark Everton í leiknum í dag. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði annað mark Everton í dag í góðum heimasigri á Leicester í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Goodison Park, 2:1. 

Þetta er fyrsta mark Gylfa í deildinni í átta og hálfan mánuð en hann skoraði síðast gegn West Ham í níundu umferðinni 19. október.

Richarlison kom Everton yfir á 10. mínútu og Gylfi bætti við marki úr vítaspyrnu á 16. mínútu. Kelechi Ihenacho náði að minnka muninn fyrir Leicester í 2:1 á 51. mínútu og þar við sat. Gylfi lék allan leikinn á miðjunni hjá Everton en hann kom á ný inn í byrjunarliðið eftir að hafa komið tvisvar inná sem varamaður eftir kórónuveiruhléið.

Everton lyfti sér með sigrinum upp í 11. sætið með 44 stig og er nú aðeins tveimur stigum frá sjöunda sætinu. Leicester nær enn ekki að vinna eftir hléið en situr áfram í þriðja sætinu með 55 stig. Það sæti getur liðið hinsvegar misst til Chelsea síðar í kvöld en Chelsea er með 54 stig og sækir West Ham heim í kvöld.

Pierre-Emerick Aubameyang fagnar öðru marka sinna gegn Norwich í dag.
Pierre-Emerick Aubameyang fagnar öðru marka sinna gegn Norwich í dag. AFP

Arsenal vann auðveldan útisigur á botnliði Norwich, 4:0, þar sem Pierre-Emerick Aubameyang skoraði á 33. mínútu og Granit Xhaka á 37. mínútu. Aubameyang var aftur á ferðinni og kom Arsenal í 3:0 á 67. mínútu. Cédric Soares skoraði fjórða markið á 81. mínútu. Arsenal  fer þar með upp í 7. sætið með 46 stig en er sex stigum á eftir Manchester United og Wolves. Norwich situr sem fyrr á botninum með 21 stig.

Newcastle vann öruggan sigur á Bournemouth á útivelli, 4:1, en Dwight Gayle skoraði á 5. mínútu og Sean Longstaff á 30. mínútu. Miguel Almirón bætti við þriðja markinu á 57. mínútu og Valentino Lazaro því fjórða á 77. mínútu. Dan Gosling kom Bournemouth á blað undir lokin. Newcastle lyfti sér upp í 12. sætið með 42 stig en Bournemouth datt niðurfyrir Aston Villa á markatölu og í næstneðsta sætið með 27 stig.

mbl.is