Shaqiri er enginn meistari

Xherdan Shaqiri byrjaði aðeins tvo leiki með Liverpool í ensku …
Xherdan Shaqiri byrjaði aðeins tvo leiki með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. AFP

Arno Rossini, fyrrverandi knattspyrnustjóri Sion í Sviss, fer ekki fögrum orðum um Xherdian Sjaqiri, sóknarmann Liverpool, en leikmaðurinn varð Englandsmeistari með Liverpool á dögunum. Rossini segir að Shaqiri eigi lítinn sem engan þátt í Englandsmeistaratitili Liverpool og segir rangt að tala um svissneska landsliðsmanninn sem meistara.

„Xherdian er enginn meistari,“ sagði Rossini í samtali við svissneska miðilinn Tio. „Það er allavega ekki hægt að tala um að hann hafi áorkað einhverju eða sett sinn svip á Liverpool-liðið sem var að vinna ensku úrvalsdeildina með þvílíkum yfirburðum að annað eins og varla sést síðan að hún var fyrst sett á laggirnar.

Þegar hann spilaði með Basel í Sviss þá var hann lykilmaður og leikstíll liðsins byggðist í kringum hann. Þannig hefur það ekki verið síðan, hvorki hjá Bayern München né hjá Liverpool sem dæmi. Það má alveg ganga svo langt og segja að hann hafi einfaldlega verið áhorfandi í vetur,“ bætti Rossini við en þjálfarinn er án starfs í dag.

mbl.is