Tottenham ætlar ekki að áfrýja

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Tottenham ætlar ekki að áfrýja niðurstöðu enska knattspyrnusambandsins sem úrskurðaði miðjumanninn Eric Dier í fjögurra leikja bann og sektaði hann um 40 þúsund pund fyr­ir hegðun sína eft­ir leik Totten­ham og Norwich í enska bik­arn­um í mars.. Þetta staðfesti José Mourinho, stjóri Lundúnaliðsins, á blaðamannafundi sínum í dag.

Tottenham mætir Bournemouth á morgun en Dier verður fjarri góðu gamni. Hann getur spilað lokaleik liðsins gegn Crystal Palace og svo auðvitað hafið næsta keppnistímabil án þess að vera í banni. Mourinho vill frekar hafa það þannig en að hætta á að bann Englendingsins verði lengt.

„Ef þú áfrýjar er hætta á að bannið lengist, hann mun allavega eins og er byrja næsta tímabil án þess að vera í banni,“ sagði portúgalski þjálfarinn við fjölmiðla. „Við vitum öll hvernig þetta virkar með úrskurði sambandsins. Þið getið séð hlutfallið af áfrýjunum sem vinnast! Við munum ekki áfrýja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert