Eigum skilið að vera í Meistaradeildinni

Pep Guardiola
Pep Guardiola AFP

Niðurstaðan úr áfrýj­un enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins Manchester City á Evr­ópu­keppn­is­bann­inu sem fé­lagið var úr­sk­urðað í af UEFA ligg­ur fyr­ir á morgun en Pep Guardiola, stjóri liðsins, segir liðið eiga skilið að halda áfram keppni.

UEFA úrskurðaði City í tveggja ára bann frá þátttöku í Evrópukeppnum fyrir brot á fjármálareglum sambandsins. City áfrýjaði úr­sk­urði UEFA til CAS, Alþjóðaíþrótta­dóm­stóls­ins. Fari svo að CAS dæmi City ekki í hag mun fé­lagið ekki leika í Meist­ara­deild Evr­ópu eða Evr­ópu­deild­inni keppn­is­tíma­bil­in 2020-21 og 2021-22.

„Við eigum skilið að vera í Meistaradeildinni vegna þess að við unnum fyrir því á vellinum,“ sagði Guardiola en lærisveinar hans tryggðu annað sæti í ensku úrvalsdeildinni í gær með 5:0-sigri á Brighton. Það þýðir að City ætti að vera öruggt með sæti í Meistaradeildinni.

„Vonandi, á mánudaginn, mun UEFA leyfa okkur að vera þar sem þessir leikmenn eiga skilið að vera,“ bætti Guardiola við en hann var að ræða við fjölmiðla á blaðamannafundi eftir leikinn í gær.

mbl.is