Úlfarnir fóru illa með Gylfa og félaga

Úlfarnir fagna einu af mörkum sínum á Molineux-vellinum í dag.
Úlfarnir fagna einu af mörkum sínum á Molineux-vellinum í dag. AFP

Vonir Gylfa Þórs Sigurðssonar og félaga hans í Everton um að ná Evrópusæti í ensku úrvalsdeildinni að knattspyrnu urðu að engu í dag er liðið fékk 3:0 skell gegn Wolves á Molineux-leikvanginum í Wolverhampton.

Íslenski landsliðsmaðurinn var í byrjunarliði Everton í dag og spilað allan leikinn eftir að hafa komið við sögu af bekknum í 1:1-jafnteflinu gegn Southampton í síðasta leik. Heimamenn fengu vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Daniel Podence lék illa á Lucas Digne inn í teig og Frakkinn endaði á að fella hann. Raul Jiménez steig á punktinn og skoraði örugglega til að senda heimamenn inn í hlé með forystu.

Everton byrjaði svo síðari hálfleikinn jafn illa og liðið endaði þann fyrri. Leander Dendoncker tvöfaldaði forystu úlfanna strax á 46. mínútu með skallamarki eftir að Pedro Neto setti boltann inn í teig úr aukaspyrnu. Diogo Jota innsiglaði svo sigurinn á 74. mínútu með einu glæsilegasta marki tímabilsins. Ruben Neves átti glæsilega vippu inn fyrir vörn Everton, á Portúgalann sem tók eina snertingu og skoraði svo framhjá Jordan Pickford í markinu, lokatölur 3:0.

Wolves er komið upp í 6. sæti og er nú þremur stigum á eftir Manchester United sem á leik til góða. Everton er aftur á móti enn í 11. sætinu með 45 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert