Solskjær segir úrslitin verðskulduð

Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni í kvöld.
Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir lærisveina sína hafa fengið það sem þeir áttu skilið er Southampton nældi í stig á Old Trafford með marki í blálokin.

Liðin skildu jöfn 2:2 og missti United þar með tækifæri til að komast upp í Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni en þrjár umferðir eru eftir og örlög Manchester-manna enn í þeirra höndum.

„Þetta er versti tíminn til að fá á sig mark en þetta gerist í fótbolta,“ sagði Solskjær við Sky Sports strax að leik loknum en Michael Oba­femi jafnaði metin fyrir Southampton á sjöttu mínútu uppbótartímans.

„Við áttum þrjú stigin ekki skilið í kvöld, þeir spiluðu vel en við fundum ekki okkar besta takt,“ bætti Norðmaðurinn við en United mætir Crystal Palace næst á fimmtudaginn.

mbl.is