Berjast um leikmann Liverpool

Adam Lallana er eftirsóttur.
Adam Lallana er eftirsóttur. AFP

Adam Lallana, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, verður samningslaus eftir tímabilið en hann verður ekki áfram í herbúðum liðsins á næstu leiktíð. Lallana gekk til liðs við Liverpool frá Southampton sumarið 2014 en það var Brendan Rodgers sem fékk miðjumanninn á Anfield fyrir 25 milljónir punda.

Lallana hefur verið í algjöru aukahlutverki hjá Liverpool, undanfarin tvö tímabil, en hann hefur verið afar óheppinn með meiðsli og það hefur reynst honum erfitt að festa sig í sessi í byrjunarliðinu. Football Insider greinir frá því að Burnley og Brighton hafi nú blandað sér í baráttuna um leikmanninn sem er orðinn 32 ára gamall.

Enskir fjölmiðlar segja að Leicester leiði ennþá kapphlaupið um undirskrift leikmannsins en Brendan Rodgers, fyrrvveandi stjóri Liverpool, stýrir liði Leicester í dag. Lallana á að baki 34 landsleiki fyrir England þar sem hann hefur skorað þrjú mörk en hann hefur leikið 178 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 22 mörk.

mbl.is