Lykilmaður Everton gæti róið á önnur mið

Richarlison
Richarlison AFP

Knattspyrnumaðurinn Richarlison segist tilbúinn að vera annað tímabil hjá Everton í ensku úrvalsdeildinni en að sama skapi muni hann ræða framtíð sína við stjórann Carlo Ancelotti ef gott tilboð berst frá öðru félagi.

Samkvæmt Sky Sports hafnaði Everton tilboði upp á 85 milljónir punda frá spænska stórliðinu Barcelona í janúar enda vill félagið alls ekki missa besta leikmann sinn. Brasilíumaðurinn skoraði 13 mörk í 36 leikjum fyrir Everton á nýliðnu tímabili, en hann kom til liðsins frá Watford sumarið 2018.

„Hann [Ancelotti] hefur nú þegar sagst treysta á að ég verði hérna annað tímabil, en þetta fer allt eftir því hvort gott tilboð berst. Ef það gerist, þá setjumst við niður og ræðum málin, þannig er fótboltinn,“ sagði Richarlison við Globo Esporte.

mbl.is