Týndur sem leikmaður og manneskja

Jesse Lingard.
Jesse Lingard. AFP

Knattspyrnumaðurinn Jesse Lingard, miðjumaður Manchester United, segist hafa verið týndur sem bæði leikmaður og manneskja á nýliðnu tímabili á Englandi en hann byrjaði aðeins níu leiki fyrir liðið í vetur og þykir af mörgum líklegur til að róa á önnur mið fyrir næstu leiktíð.

„Ég vildi aldrei gefast upp, ég vissi hver ég var innan og utan vallar. Að komast þangað aftur þýddi að leggja harðar að mér en nokkru sinni fyrr,“ skrifar Lingard á samfélagsmiðlinum Instagram.

Enski miðjumaðurinn, 27 ára, hefur þurft að axla meiri ábyrgð á yngri systkinum sínum eftir að móðir þeirra veiktist alvarlega í vetur. Í kjölfarið versnaði frammistaða hans fyrir United og sagði Ole Gunnar Solskjær, stjóri liðsins, að Lingard væri kominn á vonarvöl hjá félaginu.

„Þetta lið og þetta félag er fjölskyldan mín og ég mun halda áfram að leggja harðar að mér til að hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum,“ bætti hann við en Lingard skoraði sitt fyrsta og eina mark á deildartímabilinu í uppbótartíma gegn Leicester í lokaleik tímabilsins um síðustu helgi. United vann leikinn 2:0 og tryggði sér Meistaradeildarsæti í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert