Tilboð Man. City í varnarmann samþykkt

Nathan Aké (t.h.).
Nathan Aké (t.h.). AFP

Bournemouth, sem er nýfallið úr ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, hefur samþykkt 41 milljónar punda tilboð frá Manchester City í varnarmanninn Nathan Aké en Sky Sports og BBC segja frá þessu.

Félögin hafa átt í viðræðum undanfarnar vikur en það var alveg ljóst að varnarmaðurinn væri á förum þegar Bournemouth mistókst að halda sæti sínu í deildinni. Aké er 25 ára gamall miðvörður en hann kom til félagsins frá Chelsea á 20 milljónir punda árið 2017. Hann hefur síðan þá verið einn besti leikmaður liðsins.

Guardian hefur áður sagt frá því að John Stones sé líklegur til að yfirgefa City og því vantar Manchester-liðið nýjan varnarmann.

mbl.is