Leikmaður Tottenham eftirsóttur

Serge Aurier í leik með Tottenham.
Serge Aurier í leik með Tottenham. AFP

AC Milan og Mónakó hafa bæði mikinn áhuga á að fá hægri bakvörðinn Serge Aurier frá Tottenham. Að sögn Sky Sports gæti Tottenham verið opið fyrir því að selja leikmanninn. 

Fílabeinsstrendingurinn var nálægt því að fara frá Tottenham síðasta sumar en hann fékk lítið að spila undir stjórn argentínska knattspyrnustjórans Mauricios Pochettinos.

Hefur hlutverk Auriers undir stjórn Josés Mourinhos verið stærra; hann lék 33 leiki á nýliðinni leiktíð en tímabilið á undan spilaði hann einungis átta úrvalsdeildarleiki. 

Aurier á enn tvö ár eftir af samningnum við Tottenham. Kom hann til enska félagsins sumarið 2017 frá Paris Saint-Germain. 

mbl.is