Vill komast aftur í ensku úrvalsdeildina

Daniel Sturridge í leik með Liverpool.
Daniel Sturridge í leik með Liverpool. AFP

Enski framherjinn Daniel Sturridge vill komast aftur í ensku úrvalsdeildina, en hann hefur verið án félags eftir að hann yfirgaf Trabzonspor í Tyrklandi í kjölfar þess að hann fékk fjögurra mánaða bann fyrir brot á veðmálareglum. 

Sturridge hefur haldið sér í formi í íbúð sinni í Los Angeles og er hann klár í næsta kafla á ferlinum, sem hann vonast til að verði á Englandi. 

„Ég hef fengið tilboð um allan heim en ég er enskur leikmaður og ég elska að spila í ensku úrvalsdeildinni. Það er minn fyrsti kostur og ég væri til í að koma til baka og spila á Englandi. Ég er opinn fyrir fleiri deildum, en ég er hungraður að standa mig á Englandi,“ sagði Sturridge við Sky. 

Sturridge er þrítugur og skoraði hann 105 mörk í 306 leikjum með Manchester City, Chelsea, Bolton, Liverpool og West Brom. Hefur hann skorað átta mörk í 26 landsleikjum með Englandi. 

mbl.is