Liverpool marði Leeds í markaleik

Mo Salah skorar sigurmarkið.
Mo Salah skorar sigurmarkið. AFP

Englandsmeistarar Liverpool þurftu heldur betur að hafa fyrir 4:3-sigri á nýliðum Leeds í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag. Liverpool komst yfir fjórum sinnum, en í þrjú skipti jafnaði Leeds. 

Mo Salah kom Liverpool yfir strax á fjórðu mínútu með marki úr víti eftir að Robin Koch, nýliði í vörn Leeds, fékk boltann í höndina innan teigs. Það tók Leeds átta mínútur að jafna og það gerði Jack Harrison eftir að hann fór illa með bæði Trent Alexander-Arnold og Joe Gomez og kláraði vel. 

Liverpool komst aftur yfir á 20. mínútu er Virgil van Dijk negldi boltanum í netið með höfðinu eftir hornspyrnu Andys Robertsons. Í þetta sinn tók það nýliðana tíu mínútur að jafna. Patrick Bamford nýtti sér sjaldséð mistök hjá van Dijk og refsaði með huggulegri afgreiðslu. 

Þremur mínútum síðar var Liverpool komið yfir í þriðja sinn þegar Mo Salah negldi boltanum upp í samskeytin nær með fallegu skoti á lofti og var staðan í hálfleik 3:2 í afar skemmtilegum leik. 

Sem fyrri neitaði Leeds að gefast upp og pólski landsliðsmaðurinn Mateusz Klich jafnaði í þriðja sinn á 66. mínútu eftir fyrirgjöf Hélders Costa frá hægri. Eftir markið sótti Liverpool án afláts og kom sigurmarkið á 88. mínútu. Rodrigo, framherji Leeds, braut þá á Fabinho innan teigs, Salah fór aftur á punktinn, og aftur skoraði hann af öryggi, fullkomnaði þrennuna, og tryggði Liverpool stigin þrjú.

Mateusz Klich jafnar í 3:3.
Mateusz Klich jafnar í 3:3. AFP
Liverpool 4:3 Leeds opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert