Sýndum hvað við getum

Carlo Ancelotti á hliðarlínunni í dag.
Carlo Ancelotti á hliðarlínunni í dag. AFP

Everton fékk sannkallaða óskabyrjun í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er liðið lagði Tottenham að velli, 1:0, í Lundúnum í fyrstu umferðinni í dag. Knattspyrnustjórinn Carlo Ancelotti var að vonum hæstánægður með niðurstöðuna.

„Við sýndum hvað við getum, svona frammistaða gefur okkur svo enn meira sjálfstraust,“ sagði Ancelotti kokhraustur en Everton var duglegt á félagsskiptamarkaðinum í sumar og fékk gott framlag frá nýju mönnunum í dag, þeim James Rodrigu­ez, Abdoulaye Doucou­ré og All­an sem allir voru í byrjunarliðinu.

„Nýju leikmennirnir byrjuðu vel. James Rodriguez getur haldið boltanum og velur iðulega réttu sendinguna, hann hjálpaði liðinu. Nú þurfum við að berjast áfram og ná Evrópusæti. Það er mikil vinna framundan.“

mbl.is