Skrifar Rúnar undir hjá Arsenal

Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Emiliano Martínez, markvörður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, kvaddi stuðningsmenn félagsins í færslu á samfélagsmiðlinum Instagram í kvöld, þriðjudagskvöld.

Martínez er að ganga til liðs við Aston Villa fyrir 20 milljónir punda en félagaskiptin hafa legið í loftinu lengi.

„Ég trúði því alltaf að ég myndi fá mitt tækifæri hjá Arsenal og ég beið eftir því í tíu ár,“ sagði Martínez meðal annars.

„Ég hef verið hjá félaginu í ellefu ár og allan þann tíma hef ég lagt mig allan fram fyrir Arsenal, jafnvel þótt það hafi oft tekið á taugarnar að sitja á bekknum. 

Eftir að hafa unnið bæði ensku bikarkeppnina og samfélagsskjöldinn ákvað ég að núna væri kominn tími til þess að breyta til,“ bætti markvörðurinn við.

Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður Íslands og Dijon í frönsku 1. deildinni, hefur verið sterklega orðaður við Arsenal að undanförnu en vefmiðillinn 433.is greindi frá því í gær að hann hefði gengist undir læknisskoðun hjá Arsenal í gærdag.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að það sé ekkert því til fyrirstöðu að Rúnar skrifi undir hjá Arsenal nú þegar Martínez er að kveðja og því megi búast við því að tilkynnt verði um félagaskiptin á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert