Vilja fá Rúnar fyrir helgina

Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allt bendir til þess að Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, verði orðinn leikmaður Arsenal fyrir komandi helgi eftir að félagið seldi markvörðinn Emiliano Martínez til Aston Villa.

Sky Sports sagði fyrir stundu að Arsenal væri nærri því að ganga frá kaupunum á Rúnari frá Dijon í Frakklandi og vonast væri til þess að það gengi eftir eins fljótt og mögulegt væri.

Rúnar þarf að vera kominn með félagaskiptin skráð og staðfest fyrir hádegi á föstudag til þess að geta verið í leikmannahópnum á laugardaginn þegar Arsenal mætir West Ham í úrvalsdeildinni.

Bernd Leno er aðalmarkvörður Arsenal og lék 32 mótsleiki á síðasta tímabili en Martínez 22. Þar af spilaði Leno 30 úrvalsdeildarleiki og Martínez átta. Þriðji markvörðurinn, Matt Macey, sem er 26 ára gamall, kom ekkert við sögu.

mbl.is