Latur og kærulaus

Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool.
Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool. AFP

Wim Kieft, fyrrverandi landsliðsmaður Hollands í knattspyrnu, skaut föstum skotum að Virgil van Dijk, varnarmanni Liverpool, í viðtali við hollenska miðilinn De Telegraaf á dögunum.

Kieft er 57 ára gamall í dag  en hann lék með liðum á borð við Ajax, Torino, PSV og Bordeaux á sínum ferli og þá lék hann 42 landsleiki fyrir Holland frá 1981 til 1993.

„Van Dijk virkar eins og hann sé með hausinn einhversstaðar allt annarsstaðar en hann á að vera,“ sagði Kieft í samtali við hollenska miðilinn.

„Hann hagar sér eins og útbrunnin stjarna, bæði með Liverpool og hollenska landsliðinu og mér finnst hann ekki leggja nærri því jafn mikið á sig og liðsfélagar hans gera í leikjum.

Hann er latur og kærulaus í þokkabót og hleypur oft á tíðum frá boltamanninum í stað þess að gefa sig allan í tæklingarnar. 

Það tók miðvörðinn langan tíma að komast í fremstu röð en hann hefur verið einn sá besti undanfarin tvö tímabil. Hann má ekki hætta núna og þarf að halda áfram að vera gagnrýninn á sjálfan sig. 

Hann þarf að stíga upp og það þarf að hrista hann duglega því hann hefur verið langt frá sínu besta í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins með Liverpool,“ bætti Kieft við.

mbl.is