Lokatilraun United

Jadon Sancho er efstur á óskalista Manchester United.
Jadon Sancho er efstur á óskalista Manchester United. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United ætlar að gera eina tilraun enn til þess að fá enska sóknarmanninn Jadon Sancho frá Borussia Dortmund í Þýskalandi en það er Mirror sem greinir frá þessu.

Sancho var sterklega orðaður við United í allan vetur en hann gekk til liðs við þýska félagið frá Manchester City, sumarið 2017, og hefur slegið í gegn í Þýskalandi.

Sancho er einungis tvítugur að árum en þrátt fyrir það hefur hann verið á meðal bestu leikmanna þýsku 1. deildarinnar, undanfarin tvö tímabil.

United hafði vonast til þess að Dortmund myndi lækka verðmiðann sinn á leikmanninum vegna kórónuveirufaraldursins en það hefur ekki gengið eftir.

Dortmund verðmetur leikmanninn á 120 milljónir punda en Mirror greinir frá því að United sé tilbúið að borga 90 milljónir punda fyrir hann.

Sancho er samningsbundinn Dortmund til sumarsins 2023 og þýska félaginu liggur því lítið á að selja leikmanninn en þýska félagið hefur hafnað nokkrum tilboðum United í Sancho í sumar.

mbl.is