Van Dijk á leið í aðgerð – tímabilið búið?

Virgil van Dijk lenti í samstuði við Jordan Pickford í …
Virgil van Dijk lenti í samstuði við Jordan Pickford í leiknum í gær og þurfti að fara meiddur af velli. AFP

Virgil van Dijk, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er með sködduð liðbönd í hné en það er BBC sem greinir frá þessu.

Miðvörðurinn öflugi fór meiddur af velli í 2:2-jafntefli Everton og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á Goodison Park í Liverpool í gær.

Van Dijk lenti í samstuði við Jordan Pickford, markvörð Everton, með þeim afleiðingum að hann gat ekki haldið leik áfram.

Hollenski landsliðsfyrirliðinn, sem er 29 ára gamall, þarf að gangast undir aðgerð vegna meiðslanna og er óvíst hversu lengi hann verður frá.

Hnémeiðsli geta verið erfið viðureignar og er ljóst að leikmaðurinn verður frá næstu mánuðina og ef allt fer á versta veg gæti hann misst af restinni af tímabilinu.

mbl.is