Eins og að vera í leikskóla að umgangast hann

Arsene Wenger og José Mourinho voru ekki bestu vinir.
Arsene Wenger og José Mourinho voru ekki bestu vinir. AFP

Arsene Wenger, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal og núverandi þróunarstjóri FIFA, kveðst ekki láta José Mourinho, núverandi knattspyrnustjóra Tottenham, raska ró sinni þó Portúgalinn hafi sent sér tóninn í kjölfarið á bókinni sem Wenger gaf út á dögunum og fjallaði um líf hans hjá Arsenal.

Mourinho var spurður á fréttamannafundi um ástæður þess að Wenger nefndi hann ekki á nafn í bókinni. Mourinho svaraði því til að það væri vel skiljanlegt, Wenger hefði aldrei unnið sig og í bókum sem þessari væru menn ekki að tína til einhver leiðindi.

„Þetta skiptir mig engu máli. Þegar hann á í hlut er endalaust verið að reyna að æsa menn upp og það er eins og að vera í leikskóla að umgangast hann, en svona er hans persónuleiki,“ svaraði Wenger þegar hann var spurður um þetta í viðtali á Canal Plus.

„Það er líka rangt sem hann segir því við unnum hann, og það var líka slatti af jafnteflum. Og svo ert það ekki „þú“ sem vinnur leikina - þú tekur þátt í sigrinum. Það erum „við“ sem vinnum. Hlutverk stjórans er að ná því sem hægt er út úr liði sínu,“ sagði Wenger.

Samkvæmt samantekt mættust Wenger og Mourinho 19 sinnum. Mourinho hafði betur í tíu  leikjum en Wenger í tveimur og sjö sinnum skildu lið þeirra jöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert