Leeds upp í þriðja sætið eftir stórsigur

Leikmenn Leeds fagna í kvöld.
Leikmenn Leeds fagna í kvöld. AFP

Leeds varð í kvöld fyrsta liðið til að vinna Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á leiktíðinni en lokatölur á Villa Park urðu 3:0, Leeds í vil. Enski framherjinn Patrick Bamford skoraði öll þrjú mörk nýliðanna. 

Leeds var heilt yfir sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og skapaði sér fín færi. Fékk Bamford tvö úrvalsfæri til að skora en hann hitti ekki markið. Hinum megin var Jack Grealish nálægt því að koma Villa yfir en Luke Ayling bjargaði á línu og var staðan markalaus í hálfleik. 

Leeds komst yfir á tíundu mínútu seinni hálfleiks er Bamford fylgdi eftir að Emiliano Martínez í marki Aston Villa varði skot frá Rodrigo og skoraði örugglega. Tólf mínútum síðar var Bamford aftur á ferðinni með stórglæsilegu skoti utan teigs upp í samskeytin. 

Bamford var ekki hættur því hann skoraði þriðja markið á 74. mínútu er hann kláraði glæsilega, umkringdur varnarmönnum Aston Villa í teignum, og þar við sat. 

Þrátt fyrir tapið er Aston Villa enn í öðru sæti með tólf stig en nýliðar Leeds fóru upp tíu stig og þriðja sætið með sigrinum. 

mbl.is