Reyndi að hafa samband við van Dijk

Jordan Pickford tæklar Virgil van Dijk illa.
Jordan Pickford tæklar Virgil van Dijk illa. AFP

Jordan Pickford markvörður Everton reyndi að hafa samband við Virgil van Dijk varnarmann Liverpool eftir að sá síðarnefndi meiddist alvarlega í samstuði leikmannanna í leik Everton og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni síðastliðinn laugardag.

Van Dijk þarf að fara í uppskurð á hné og verður lengi frá og Carlo Ancelotto knattspyrnustjóri Everton segir að Pickford hafi reynt að setja sig í samband við hollenska varnarmanninn. 

„Ég veit hann ræddi við Jordan Henderson eftir leikinn en ég veit ekki hvort hann náði sambandi við van Dijk. Ég veit hann reyndi það,“ sagði Ancelotti á blaðamannafundi í dag. 

Pickford hefur fengið mikla gagnrýni fyrir atvikið en þrátt fyrir það heldur hann sæti sínu í liðinu. „Ég ætla ekki að taka hann úr liðinu. Pickford æfir vel og er einbeittur,“ sagði ítalski stjórinn. 

mbl.is