Markvörður Everton þarf á lífvörðum að halda

Jordan Pickford er langt frá því að vera vinsælasti maðurinn …
Jordan Pickford er langt frá því að vera vinsælasti maðurinn í Liverpool þessa dagana. AFP

Jordan Pickford, markvörður enska knattspyrnufélagsins Everton, á ekki sjö dagana sæla þessa dagana en hann hefur verið mikið í umræðunni eftir leik Everton og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni hinn 17. október síðastliðinn.

Pickford tæklaði Virgil van Dijk, varnarmann Liverpool, mjög illa í leiknum með þeim afleiðingum að miðvörðurinn skaddaði liðbönd á hné.

Pickford var ekki refsað fyrir tæklinguna en Van Dijk mun að öllum líkindum ekki spila meira á tímabilinu og þá er óvíst með þátttöku hans með hollenska landsliðinu á lokakeppni EM sem fram fer víðsvegar um Evrópu næsta sumar.

Pickford hefur fengið mikið af líflátshótunum eftir atvikið og þá hefur fjölskyldu hans einnig verið hótað á samfélagsmiðlum.

„Jordan er í hálfgerðu sjokki yfir öllum svívirðingunum sem hann hefur mátt þola undanfarna daga,“ sagði aðili tengdur markmanninum í samtali við Sportsmail.

„Hann hefur ráðið lífverði sem fylgja bæði honum og fjölskyldu hans hvert fótmál. Þá sér öryggisfyrirtæki um að vakta húsið hans á kvöldin og næturna,“ segir ennfremur í umfjöllun Sportsmail um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert