Liverpool fær sárabætur frá FIFA

Joe Gomez meiddist á æfingu enska landsliðsins á dögunum.
Joe Gomez meiddist á æfingu enska landsliðsins á dögunum. AFP

Enska knattspyrnufélagið mun fá tvær milljónir punda frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, eftir að Joe Gomez, miðvörður liðsins, meiddist á æfingu enska landsliðsins á dögunum.

Gomez verður frá næstu mánuðina eftir að hann skaddaði sinar í hné á æfingu Englands í síðustu viku en hann gekkst undir aðgerð vegna meiðslanna á fimmtudaginn síðasta.

Óvíst er hvort miðvörðurinn, sem er 23 ára gamall, spilar meira með Liverpool á tímabilinu en FIFA greiðir laun leikmanna sem meiðast í landsliðsverkefnum.

Gomez þénar í kringum 80.000 pund á viku en miðað við upphæðina sem Liverpool fær frá FIFA má gera ráð fyrir því að Gomez verði frá í sjö til átta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert