City upp um sjö sæti

Kevin De Bruyne skoraði eitt og lagði upp annað.
Kevin De Bruyne skoraði eitt og lagði upp annað. AFP

Manchester City vann öruggan 2:0-sigur á Fulham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Með sigrinum fór City upp um sjö sæti og upp í fjórða sæti þar sem liðið er með 18 stig. 

City fór hressilega af stað og Raheem Sterling skoraði á 5. mínútu er hann slapp í gegn eftir fallega sendingu frá Kevin De Bruyne. Tuttugu mínútum síðar náði Sterling í vítaspyrnu og De Bruyne fór á punktinn og skoraði. 

Þrátt fyrir fín færi í seinni hálfleik urðu mörkin ekki fleiri en De Bruyne fékk tvö úrvalsfæri til að bæta við sínu öðru marki. Fyrst negldi hann boltanum í slána um miðjan seinni hálfleikinn og skömmu síðar slapp hann einn í gegn en Alphonse Aréola varði vel frá honum í marki Fulham. 

City er eins og áður segir í fjórða sæti með 18 stig. Fulham er í 17. sæti með sjö stig, einu stigi fyrir ofan fallsætin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert