Liverpool átti í basli með varalið Aston Villa

Mohamed Salah skorar hér fjórða mark Liverpool á Villa Park …
Mohamed Salah skorar hér fjórða mark Liverpool á Villa Park í kvöld. AFP

Englandsmeistarar Liverpool þurftu aðeins að hafa fyrir því að leggja varalið Aston Villa að velli í 64-liða úrslitum enska bikarsins í knattspyrnu á Villa Park í kvöld. Heimamenn þurftu að tefla fram leikmönnum úr yngri liðum sínum í leiknum eftir að allt aðallið félagsins var sett í sóttkví vegna kórónuveirusmita. Leiknum lauk með 4:1-sigri Liverpool.

Sjö úr byrjunarliði Aston Villa í kvöld spila fyrir U23 ára lið félagsins og fjórir komu úr U18 liðinu en gestirnir tefldu fram sterku byrjunarliði; framherjarnir Sadio Mané og Mohamed Salah byrjuðu ásamt fyrirliðanum Jordan Henderson sem hafði Georginio Wijnaldum sér við hlið á miðjunni.

Það kom því ekki á óvart er Liverpool tók forystuna strax á 4. mínútu með marki frá Mané en öllu óvæntara var þegar hinn 17 ára Louie Barry jafnaði metin á 41. mínútu en staðan var jöfn í hálfleik, 1:1. Leikmenn Liverpool færðu sig þó upp á skaftið eftir hlé, Wijnaldum kom gestunum aftur yfir á 60. mínútu og þeir Mané og Salah bætti við mörkum strax í kjölfarið, á 63. og 65. mínútu til að innsigla sigurinn.

Annar leikur fór fram í bikarkeppninni í kvöld en Wolves vann 1:0-heimasigur á Crystal Palace þökk sé sigurmarki Adama Traoré á 35. mínútu.

mbl.is

Bloggað um fréttina