Úrvalsdeildarliðið í vandræðum í Wales – Steele varði fjögur víti

Brighton slapp með skrekkinn gegn Newport.
Brighton slapp með skrekkinn gegn Newport. AFP

Brighton úr úrvalsdeildinni er komið í 32-liða úrslit enska bikarsins í fótbolta eftir nauman útisigur á velska félaginu Newport County sem leikur í ensku D-deildinni í vítaspyrnukeppni í kvöld.

Allt benti til þess að Solly March hefði skotið Brighton í næstu umferð er hann skoraði á lokamínútunni en heimamenn í Newport neituðu að gefast upp og jöfnuðu með sjálfsmarki frá Adam Webster á sjöttu mínútu uppbótartímans, 1:1, og því þurfti að framlengja. 

Ekkert mark var skorað í framlengingunni og réðust úrslitin því í vítaspyrnukeppni. Þar skoraði Brighton úr fjórum af sjö spyrnum sínum en Newport aðeins úr þremur af sjö og fór úrvalsdeildarliðið því naumlega áfram. 

Jason Steele var hetja Brighton en hann varði fjórar vítaspyrnur.

mbl.is