Glórulaust mark að fá á sig

José Mourinho var pirraður eftir úrslit kvöldsins.
José Mourinho var pirraður eftir úrslit kvöldsins. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, var hundfúll eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í knattpyrnu í London í kvöld.

Harry Kane kom Tottenham yfir í fyrri hálfleik en Ivan Cavaleiro jafnaði metin fyrir Fulham í síðari hálfleik og þar við sat.

„Alphonse Areola, markvörðurinn þeirra, varði oft og tíðum meistaralega í fyrri hálfleik og í þeim síðari,“ sagði Mourinho í samtali við Sky Sports.

„Við verðum að drepa leikinn og við gerðum það ekki. Þú þarft líka að halda markinu þínu hreinu og það gerðum við ekki heldur.

Við fengum á okkur mark sem við hefðum aldrei átt að fá á okkur. Það var fullt af mönnum í kringum manninn sem skorar en samt var enginn að valda hann. Þetta var glórulaust mark að fá á sig.

Við erum ekki að ná í góð úrslit þessa dagana sem er slæmt en við eigum og verðum að gera betur því þetta eru leikir sem við eigum að vinna,“ bætti Mourinho við.

mbl.is