Miðvörður Liverpool hvergi sjáanlegur

Joel Matip er að jafna sig á nárameiðslum.
Joel Matip er að jafna sig á nárameiðslum. AFP

Joel Matip var hvergi sjáanlegur á AXA-æfingasvæði Englandsmeistara Liverpool í knattspyrnu í morgun.

Það er Liverpool Echo sem greinir frá þessu en Matip fór meiddur af velli í 1:1-jafntefli Liverpool og WBA í deildinni á Anfield, 27. desember.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hafði vonast til þess að Matip yrði klár í slaginn um helgina en Liverpool fær Manchester United í heimsókn í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn kemur.

Matip hefur misst af síðustu þremur leikjum Liverpool vegna meiðsla en The Athletic greindi frá því í síðustu viku að endurhæfing Matips gengi vel.

Jordan Henderson og Fabinho voru miðverðir Liverpool í síðasta deildarleik liðsins gegn Southampton en leiknum lauk með 1:0-sigri Southampton.

Matip er eini miðvörður Liverpool með reynslu en þeir Virgil van Dijk og Joe Gomez eru báðir að jafna sig eftir hnémeiðsli og er óvíst hvenær þeir snúa aftur á knattspyrnuvöllinn.

mbl.is