Taugatitringur í Liverpool

Liverpool tekur á móti Manchester United í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar …
Liverpool tekur á móti Manchester United í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn. AFP

Leikmenn Englandsmeistara Liverpool í knattspyrnu verða stressaðir á sunnudaginn kemur þegar þeir mæta til leiks gegn Manchester United í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á Anfield.

Þetta sagði Graeme Souness, fyrrverandi fyrirliði og þjálfari Liverpool, í samtali við Sky Sports í aðdraganda leiksins.

United er með þriggja stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar á Liverpool en meistararnir geta endurheimt toppsætið með sigri á sunnudaginn.

„Þegar að þú ert topplið deildarinnar þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af neinu nema sjálfum þér," sagði Souness.

„Þannig hefur það verið hjá Liverpool undanfarið árið en núna er staðan öörðuvísi. Liverpool hefur verið að hiksta og það er ekki sama stöðugleiki í liðinu og verið hefur. Þeir eru einfaldlega ekki að spila jafn vel og þeir hafa gert en eru þrátt fyrir það í öðru sæti deildarinnar.

Leikir Liverpool og Manchester United eru alltaf stórleikir og staðan í töflunni breytir því ekki. Einvígið núna er sérstaklega áhugavert enda leikir sem bæði lið vilja alltaf vinna, sama hvað. Þetta eru stærstu félög Bretlandseyja og sagan er mikil.

Í fyrsta sinn í langan tíma munu leikmenn Liverpool mæta stressaðir til leiks. Það er búið að hrósa liðinu mikið undanfarin ár enda hafa þeir spilað stórkostlegan fótbolta. Á þessari leiktíð hafa þeir verið að tapa stigum á ólíklegustu stöðum og pressan er á þeim á sunnudaginn,“ bætti Souness við.

mbl.is