Forysta United gefur ekki rétta mynd af stöðunni

Manchester United tyllti sér á toppinn í ensku úrvalsdeildinni í …
Manchester United tyllti sér á toppinn í ensku úrvalsdeildinni í vikunni þegar liðið vann 1:0-útisigur gegn Burnley. AFP

Jason McAteer, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir forskot Manchester United á toppi ensku úrvalsdeildarinnar ekki gefa rétta mynd af stöðunni í deildinni.

United er með 36 stig í efsta sæti deildarinnar og hefur þriggja stiga forskot á Liverpool sem er í öðru sæti deildarinnar með 33 stig.

Liðin mætast í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn kemur en Liverpool getur með sigri endurheimt toppsætið af nágrönnum sínum í Manchester.

„Mér finnst forskot United á toppi deildarinnar ekki gefa rétta mynd af stöðunni í deildinni,“ sagði McAteer í samtali við Sky Sports.

„Burnley gaf þeim alvöru leik en þeim tókst að kreista fram seiglusigur. Liðið er á réttri leið og andrúmsloftið í herbúðum United virkar á réttri leið.

Á sama tíma hefur United sloppið virkilega vel þegar kemur að meiðslum sem dæmi. Ole Gunnar Solskjær hefur nánast alltaf getað valið sitt besta lið.

Þegar það fer að síga á seinni hluta tímabilsins þá tel ég að þetta verði barátta á milli Liverpool og Manchester City.

United mun gefa eftir á lokasprettinum,“ bætti McAteer við en hann lék 139 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum frá 1995 til 1999.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert