Arsenal sannfærandi gegn lánlausu liði

Pierre-Emerick Aubameyang fagnar opnunarmarkinu að hætti hússins á Emirates-leikvanginum í …
Pierre-Emerick Aubameyang fagnar opnunarmarkinu að hætti hússins á Emirates-leikvanginum í kvöld. AFP

Pierre-Emerick Aubameyang skoraði tvö mörk og Bukayo Saka eitt er Arsenal vann öruggan 3:0-sigur á Newcastle á Emirates leikvanginum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Sigurinn var sá fjórði í fimm leikjum hjá Lundúnaliðinu sem færði sig upp í 10. sæti deildarinnar.

Newcastle hefur nú ekki unnið í síðustu níu leikjum sínum í öllum keppnum en þetta var þar að auki níunda tap liðsins í röð gegn Arsenal á útivelli. Það var reyndar markalaust í hálfleik og ekkert endilega augljóst að kvöldið átti eftir að verða þægilegt fyrir heimamenn. Hvorugu liðinu tókst að skapa sér færi fyrir hlé en það átti fljótt eftir að breytast.

Heimamenn brutu ísinn strax á 50. mínútu og var það fyrirliðinn Aubameyang sem skoraði markið en hann hefur nú skorað í fjórum leikjum í röð gegn Newcastle. Gabonmaðurinn fékk boltann á vinstri kantinum eftir sendingu Thomas Partey og hann keyrði inn í teig og skoraði með föstu vinstrifótarskoti í fjærhornið.

Staðan var svo orðin 2:0 rúmum tíu mínútum síðar er Emile Smith-Rowe rak knöttinn upp vinstri kantinn og lagði hann svo fyrir Saka sem kom aðvífandi og skoraði framhjá Karl Darlow í markinu. Aubameyang rak svo smiðshöggið á góðan sigur með öðru marki sínu og þriðja marki Arsenal á 77. mínútu af stuttu færi eftir sendingu Cedric Soares.

Ekkert gengur hjá Newcastle sem er í 15. sæti með 19 stig, sjö stigum fyrir ofan fallsæti en Steve Bruce, knattspyrnustjóri liðsins, hlýtur að fara verða valtur í sessi ef ekkert breytist í bráð.

Joelinton tæklar á eftir Cedric Soares á Emirates-leikvanginum í kvöld.
Joelinton tæklar á eftir Cedric Soares á Emirates-leikvanginum í kvöld. AFP
Arsenal 3:0 Newcastle opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is