Mikilvægast að ná Meistaradeildarsæti

Jürgen Klopp ræddi málið við fjölmiðla eftir leik Liverpool og …
Jürgen Klopp ræddi málið við fjölmiðla eftir leik Liverpool og Manchester United í gær. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Liverpool, segir að markmið Liverpool í ensku úrvalsdeildinni sé fyrst og fremst að enda í efstu fjórum sætunum og tryggja sér þannig sæti í Meistaradeild Evrópu á komandi keppnistímabili.

Þetta staðfesti stjórinn eftir markalaust jafntefli Liverpool og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á Anfield í gær.

Liverpool hefur fatast flugið í deildinni að undanförnu en eftir að hafa verið í efsta sæti deildarinnar um jólin er liðið nú án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum sínum.

„Það skiptir mig ekki máli hvar við erum í töflunni á þessum tímapunkti,“ sagði Klopp í samtali við Sky Sports eftir leikinn.

„Það eina sem skiptir máli er að við erum með stig á töflunni og í kringum efstu lið deildarinnar. 

Það er hörð barátta um efstu sæti deildarinnar og við erum í þeirri baráttu. Við erum ekki að hugsa um Englandsmeistaratitilinn heldur.

Við erum á þeim stað núna að við þurfum að berjast fyrir öllum stigum og núna mikilvægast fyrir okkur að ná Meistaradeildarsæti. 

Ég veit hversu erfitt það er í þessari deild og þetta verður hörð barátta allt til enda,“ bætti Klopp við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert