Thiago ástæðan fyrir slæmu gengi Liverpool?

Thiago og Jordan Henderson í baráttunni við Paul Pogba á …
Thiago og Jordan Henderson í baráttunni við Paul Pogba á Anfield á sunnudaginn. AFP

John Barnes, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, telur að innkoma Thiago Alcantara í liðið gæti hafa haft slæm áhrif á sóknarmenn liðsins.

Thiago gekk til liðs við Liverpool frá Bayern München síðasta haust fyrir 25 milljónir punda en hann lék lítið með liðinu fyrstu mánuði sína á Anfield vegna bæði meiðsla og kórónuveirunnar.

Hann sneri hins vegar aftur í liðið milli jóla og nýárs og hefur verið fastamaður í liðinu í undanförnum leikjum en Liverpool hefur ekki skorað í síðustu þremur deildarleikjum sínum.

„Thiago var besti maður vallarins í fyrri hálfleik gegn Manchester United,“ sagði Barnes í samtali við TalkSport eftir stórleik Liverpool og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á Anfield á sunnudaginn síðasta en leiknum lauk með markalausu jafntefli.

„Á sama tíma finnst mér nærvera hans á vellinum ekki hjálpa fremstu þremur leikmönnum liðsins ef ég á að vera alveg hreinskilinn.

Þegar Henderson og Fabinho eru á miðsvæðinu sem dæmi þá eru þeir alltaf að leita fram á við. Þeir hreyfa boltann hratt og eru alltaf að leita leiða til þess að finna sóknarmenn Liverpool.

Thiago hægir mikið á leiknum, sérstaklega á þröngu svæði þegar mótherjar Liverpool verjast aftarlega, en það hentar hvorki Mané né Salah vel.

Það eru allir að reyna að venjast nýju leikkerfi ef svo má segja en það virðist henta mönnum misvel,“ bætti Barnes við.

mbl.is