Líklegastur til að taka við Chelsea

Thomas Tuchel verður næsti knattspyrnustjóri Chelsea samkvæmt enskum fjölmiðlum.
Thomas Tuchel verður næsti knattspyrnustjóri Chelsea samkvæmt enskum fjölmiðlum. AFP

Thomas Tuchel, fyrrverandi knattspyrnustjóri Frakklandsmeistara PSG, þykir líklegastur til þess að taka við enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea.

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en Tuchel var rekinn sem knattspyrnustjóri PSG í desember á síðasta ári.

Mauricio Pochettino var ráðinn stjóri PSG en Tuchel hefur verið án starfs síðan. Tuchel er 47 ára gamall en hann hefur stýrt Augsburg, Mainz og Borussia Dortmund á ferlinum.

Hann tók við liði Dortmund þegar Jürgen Klopp lét af störfum hjá félaginu en Tuchel gerði þýska liðið að bikarmeisturum árið 2017.

Þá hafa þeir Massimiliano Allegri, Andriy Shevchecko og Rafa Benítez einnig verið orðaðir við starfið en Tuchel þykir lang líklegastur samkvæmt enskum veðbönkum.

Roman Abramovich, eigandi félagsins, er sagður vilja fá þýskan stjóra til þess að ná því besta út úr þeim Timo Werner og Kai Havertz sem voru báðir keyptir dýrum dómi síðasta sumar.

mbl.is