Silva verður ekki með á Anfield

Thiago Silva og Thomas Tuchel.
Thiago Silva og Thomas Tuchel. AFP

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, staðfesti í dag að brasilíski varnarmaðurinn Thiago Silva yrði ekki með liðinu gegn Liverpool í stórleik liðanna í ensku úrvalsdeildinni á Anfield annað kvöld.

Silva hefur verið frá keppni í mánuð, eftir að hann fór af velli í fyrri hálfleik gegn Tottenham 4. febrúar, og hefur misst af síðustu sex leikjum liðsins.

Fjarveran hefur þó ekki komið að sök því að Tottenham-leiknum meðtöldum hefur Chelsea unnið fimm leiki og gert tvö jafntefli frá þessum tíma og aðeins fengið á sig tvö mörk síðan Silva meiddist. Daninn Anders Christensen hefur fyllt skarð hans og verið mjög traustur í vörn Lundúnaliðsins.

mbl.is