Tilbúnir til að selja Gylfa í sumar

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton gegn Fulham.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton gegn Fulham. AFP

Enska knattspyrnufélagið Everton vill frekar selja Gylfa Þór Sigurðsson í sumar en að missa hann frá sér ári síðar án greiðslu.

Þetta segir enski knattspyrnuvefurinn Football Insider, samkvæmt heimildum, en forráðamenn Everton séu tilbúnir til að sjá til hvað þeir gætu fengið fyrir hann að þessu keppnistímabili loknu, þrátt fyrir mikilvægi hans fyrir liðið um þessar mundir.

Everton muni þó ekki fá nema lítinn hluta af þeim 45 milljónum punda sem félagið greiddi Swansea fyrir hann árið 2017.

Football Insider segir að Gylfi sé í miklu uppáhaldi hjá Carlo Ancelotti knattspyrnustjóra, sé lykilmaður í hópnum sem skori reglulega og leggi upp mörk, en Íslendingurinn verði 32 ára í sumar og eigi þá aðeins eitt ár eftir af samningi sínum.

Það gæti þó reynst snúið að selja Gylfa vegna þess hve launahár hann sé en Football Insider segir að hann fái um það bil 100 þúsund pund á viku hjá félaginu.

mbl.is