Sá markahæsti yfirgefur City

Sergio Agüero er á förum frá Manchester City.
Sergio Agüero er á förum frá Manchester City. AFP

Sergio Agüero, markahæsti leikmaður í sögu enska knattspyrnufélagsins Manchester City, mun yfirgefa félagið þegar samningur hans rennur út.

Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en samningur argentínska framherjans við Englandsmeistaraefnin rennur út í sumar.

Agüero, sem er orðinn 32 ára gamall, gekk til liðs við City frá Atlético Madrid árið 2011 en enska félagið borgaði 35 milljónir punda fyrir leikmanninn á sínum tíma.

Framherjinn hefur skorað 257 mörk fyrir félagið í 384 leikjum en hann hefur verið mikið meiddur á yfirstandandi tímabili og aðeins byrjað fjóra leiki í ensku úrvalsdeildinni.

Hann hefur verið orðaður við stórlið Barcelona á Spáni að undanförnu en hann og Lionel Messi, fyrirliði Barcelona, eru miklir vinir.

Agüero hefur leikið 97 landsleiki fyrir Argentínu og skorað í þeim 41 mark en hann hefur fjórum sinnum orðið Englandsmeistari með City, einu sinni bikarmeistari og fimm sinnum deildabikarmeistari.

mbl.is