Markasúpur þegar liðin mætast (myndskeið)

Svo virðist sem ógrynni marka séu ávallt skoruð þegar Arsenal og Liverpool mætast.

Í meðfylgjandi myndskeiði er farið yfir nokkrar af viðureignum liðanna í ensku úrvalsdeildinni í gegnum tíðina þar sem sóknarleikur hefur svo sannarlega fremur fengið að njóta sín en sterkur varnarleikur.

Robbie Fowler skoraði þrennu tvær leiktíðir í röð, Thierry Henry sýndi listir sínar, Andrei Arshavin skoraði fernu í ótrúlegu jafntefli, Liverpool komst í 4:0 eftir 20 mínútur og þannig mætti lengi halda áfram.

Arsenal tekur á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn og má sem endranær eiga von á fjölda marka í leiknum. Í fyrri leik liðanna voru þau fjögur þegar Liverpool vann 3:1-sigur á Anfield.

Leikurinn á laugardaginn hefst klukkan 19 og verður í beinni útsendingu á Símanum Sport. Upphitun hefst hálftíma fyrr og leikurinn verður jafnframt í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is