Kane setur Tottenham afarkosti

Harry Kane.
Harry Kane. AFP

Knattspyrnumaðurinn Harry Kane, fyrirliði Tottenham, hefur sett forráðamönnum félagsins afarkosti en hann er einn öflugasti framherjinn í Evrópu.

Kane er 27 ára og hefur verið samningsbundinn Tottenham allan sinn feril en hann hefur skorað 217 mörk í 328 leikjum fyrir félagið síðan 2014. Þrátt fyrir að vera einn besti sóknarmaður heims hefur Kane aldrei unnið stóran titil með félagsliði sínu, jafnvel þótt Tottenham hafi stundum verið í baráttunni um enska meistaratitilinn. Þá komst félagið alla leið í úrslit í Meistaradeildinni 2019.

The Athletic segir frá því í dag að Kane muni heimta sölu frá félaginu takist því ekki að vinna sér inn sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en landsliðsfyrirliðinn er orðinn þreyttur á því að berjast ekki meira um stærstu verðlaun knattspyrnunnar.

Tottenham er í 6. sæti úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum á eftir Chelsea og þremur á eftir West Ham. Félög á borð við Manchester United og Real Madríd eru sögð áhugasöm um að kaupa Kane, verði hann til sölu í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert