Frakkinn lyfti Newcastle frá botninum

Allan Saint-Maximin fagnar sigurmarki sínu á Turf Moor.
Allan Saint-Maximin fagnar sigurmarki sínu á Turf Moor. AFP

Newcastle spyrnti sér frá fallbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu með 2:1-útisigri gegn Burnley í 31. umferðinni í dag. Newcastle er nú sex stigum fyrir ofan fallsæti og á þar að auki leik til góða.

Það voru hins vegar heimamenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins og voru líklegri í fyrri hálfleik. Matej Vydra kom Burnley í forystu á 18. mínútu með marki af stuttu færi á fjærstönginni eftir fyrirgjöf Chris Wood en Jóhann Berg Guðmundsson var hársbreidd frá því að ná til boltans á nærstönginni.

Íslenski landsliðsmaðurinn var í byrjunarliði Burnley og tekinn af velli á 90. mínútu er heimamenn leituðu að jöfnunarmarki en Newcastle sneri taflinu við á fimm mínútna kafla í síðari hálfleik. Frakkinn Allan Saint-Maximin kom inn af varamannabekknum í liði Newcastle á 57. mínútu og tveimur mínútum síðar lagði hann upp jöfnunarmarkið sem Jacob Murphy skoraði.

Saint-Maximin skoraði svo sjálfur á 64. mínútu með laglegu marki, fékk boltann á eigin vallarhelming, geysist fram hjá nokkrum varnamönnum Burnley og skoraði svo með hnitmiðuðu skoti í hornið.

Með sigrinum fór Newcastle í 32 stig en liðið er nú sex stigum fyrir ofan Fulham í fallsæti ásamt því að eiga leik til góða. Burnley er í 15. sæti með 33 stig og á því á hættu á að dragast ofan í fallbaráttuna, takist neðstu liðum að vinna stig á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert