Sonur minn fengi ekki að borða eftir svona hegðun

Ole Gunnar Solskjær og Heung-Min Son tókust í hendur í …
Ole Gunnar Solskjær og Heung-Min Son tókust í hendur í leikslok. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United, var ekki skemmt yfir hegðun Heung-min Son, leikmanns Tottenham, í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Mark var dæmt af United í fyrri hálfleik eftir að Scott McTominay rak höndina aðeins í andlit Suður-Kóreumannsins í aðdraganda marksins. Chris Kavanagh dómari horfði á atvikið aftur með aðstoð myndbandsdómgæslunnar og ákvað að dæma aukaspyrnu frekar en að leyfa markinu að standa.

„Leikurinn er farinn, gjörsamlega farinn!“ sagði gáttaður Solskjær í samtali við Sky Sports eftir leik. „Þetta var fullkomlega löglegt mark,“ bætti hann við. Þá var Norðmaðurinn sérlega ónáægður með viðbrögð Son í kjölfar atvikisins en sóknarmaður lá lengi á vellinum og þurfti meðal annars aðhlynningu frá læknateyminu.

„Ef sonur minn lægi í grasinu í þrjár mínútur og þyrfti tíu liðsfélaga til að koma sér á fætur eftir svona högg myndi ég ekki gefa honum að borða eftir það!“ bætti Solskjær við, þó vonandi ekki af fullri alvöru.

mbl.is