Við skulduðum Tottenham alvöruleik

Scott McTominay eltir Lucas Moura í leiknum í dag.
Scott McTominay eltir Lucas Moura í leiknum í dag. AFP

Manchester United kom til baka og vann öflugan 3:1-útisigur gegn Tottenham eftir að hafa lent undir í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Tottenham vann fyrri leik liðanna í vetur á Old Trafford 6:1 og hafa United-menn viðurkennt á síðustu dögum að þeir voru mættir til Lundúna í dag til að ná fram hefndum.

„Við skulduðum Tottenham alvöruleik, við vorum með það í huga. Við vorum miklu betri í dag en síðast,“ sagði Scott McTominay við Sky Sports eftir leikinn. United skoraði fyrsta mark leiksins en það var síðan dæmt af eftir að dómarinn horfði á atvikið aftur þar sem McTominay rak höndina í Heung-min Son í aðdraganda marksins.

„Ég er ekki hrifinn af VAR en dómararnir þurfa að taka ákvarðanir og allir gera stundum mistök. Við þurftum bara að halda haus, við höfum karakter og spiluðum vel gegn erfiðu liði í dag.“

Eftir að Son kom svo Tottenham yfir náðu gestirnir frá Manchester að svara með þremur mörkum í síðari hálfleik, Fred, Edinson Cavani og Mason Greenwood skoruðu þau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert