Æfir á ný þremur mánuðum eftir greiningu með krabbamein

Sol Bamba hefur leikið með Cardiff í fimm ár.
Sol Bamba hefur leikið með Cardiff í fimm ár. AFP

Sol Bamba, knattspyrnumaður frá Fílabeinsströndinni sem leikur með Cardiff City í ensku B-deildinni, er byrjaður að æfa á nýjan leik, þremur mánuðum eftir að hann greindist með krabbamein.

Bamba, sem er 36 ára gamall, greindist með bráðahvítblæði í janúar og hóf þá þegar geislameðferð. Honum hefur gengið það vel að hann er kominn af stað í léttum æfingum á ný hjá liði sínu.

Bamba var m.a. liðsfélagi Arons Einars Gunnarssonar um skeið en hann hefur spilað 111 deildaleiki með Cardiff, þar af 28 veturinn 2018-19 þegar liðið lék í úrvalsdeildinni, og þá á hann að baki 47 landsleiki með Fílabeinsströndinni. Hann kom til Cardiff frá Leeds árið 2016 en lék áður m.a. með Leicester, Palermo á Ítalíu, Trabzonspor í Tyrklandi og skosku liðunum Hibernian og Dunfermline. Bamba ólst upp hjá París SG í Frakklandi og náði að spila einn deildaleik með liðinu.

„Ég á enn langt í land en þetta er gríðarlega mikilvægt skref fyrir mig. Undanfarnir mánuðir hafa verið mjög erfiðir fyrir mig og mína fjölskyldu svo það er ótrúlegt að vera núna á undan áætlun og kominn aftur út á völl með félögum mínum,“ sagði Bamba á vef félagsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert